top of page

Líkamsstaða og verkir

Writer: -Harpa Ragnarsdóttir-Harpa Ragnarsdóttir

Oft og tíðum rekjum við sjúkraþjálfarar verki og vandamál þeirra sem til okkar koma til líkamsstöðu. Það átta sig ef til vill ekki allir á því hvað líkamsstaðan getur skipt gríðarlega miklu máli þegar kemur til líkamlegrar og andlegrar vellíðunar. Þar má nefna líkamleg einkenni svo sem:

  • Bakverki

  • Þreytuverki í herðum

  • Höfuðverki

  • Suð í eyrum

  • Tennisolnboga

  • Verki í öxlum

  • Minnkaða hreyfigetu í hálsi og öxlum  




Ákjósanleg standandi staða er sú staða sem orsakar sem minnst álag á liði líkamans. Rauða línan á myndinni táknar svokallaða lóðlínu. Við viljum að lóðlínan falli frá eyrum, gegnum axlarliði og mjaðmaliði, aðeins aftan við hnéskelja og aðeins framan við kúlurnar á ökklunum. Í þessari stöðu erum við best til þess fallin að vernda hrygginn, mjaðmir og hné. Ástæða þess að ýmsir leita í einhverjar af hinum stöðunum er oft sú að ákveðnir vöðvar líkamans eru „slappir“ á meðan aðrir eru of sterkir eða „stífir“.



Gott er að gera eftirfarandi fyrir framan spegil til að byrja með en æfa svo einnig án spegils og treysta á tilfinninguna fyrir því að verið er að gera rétt.

  1. Stattu upp og komdu þér fyrir í því sem þér finnst vera þægileg og afslöppuð líkamsstaða. Passaðu að hafa um það bil mjaðmabreidd milli fóta.

  2. Byrjaðu á að leiða hugann að því hvernig líkamsþunginn dreyfist á fæturna, hann á að skiptast jafnt milli vinstri og hægri og um 60% á að vera á hælum og um 40% á framfæti. Prófaðu að standa í sömu sporunum en halla þér til vinstri og hægri og fram og aftur og finna hvernig þyngdarpunkturinn breytist.

  3. Þegar þú telur þig hafa náð sem bestri þungadreifingu á fætur skaltu huga að hnjám. Þau mega ekki vera í yfirréttu og ekki of beygð. Prófaðu að yfirrétta og beygja til skiptis og finna svo góða miðstöðu fyrir hnén. Ef þú ert almennt í yfirréttu gæti þér þótt þessa staða einkennileg og eins og hún sé röng. Það er vegna þess að þú þarft að „kenna“ líkamanum upp á nýtt hvað er rétt.

  4. Að því loknu skaltu einbeita þér að stöðu mjaðmagrindarinnar. Hún á ekki að vera of framhallandi og ekki of afturhallandi. Prófaðu að velta henni fram og til baka og finna þannig hvar hún er í miðstöðu og stoppa þar.

  5. Þar næst skaltu hugsa um herðar. Leiddu hugann að mögulegri „spennu“ í herðum. Hendur eiga að hanga niður með síðu og brjóstkassi á að þenjast út í hvert sinn sem þú dregur andann inn.

Ef þú telur þig vera með stoðkerfisverki eða -einkenni sem mögulega tengjast líkamsstöðu þinni skaltu panta tíma í sjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfarinn myndi þá greina orsök vandamálsins og koma með tillögur að úrbótum.

Sendu okkur skilaboð

Þú getur haft samband með því að nota formið hér til hliðar eða senda póst á elja@eljan.is

Einnig má hafa samband með því að hringja í síma 5340015.

bottom of page